Lög og reglugerðir

Hæfingarstöðin Bæjarhrauni fellur undir opinbera stjórnsýslu og ber því að vinna eftir ýmsum lögum og reglugerðum. Jafnframt er Samningur sameinuðuþjóðanna um réttindi fatlaðs fólks fullgildur á Íslandi og eiga lög nr. 38/2018 að tryggja að sáttmálanum sé framfylgt. Starfskenning og siðareglur þroskaþjálfa, sem koma mikið að starfi þjónustunotenda Hæfingarstöðvarinnar, er leiðarljós í starfinu.

Hér fyrir neðan má sjá hvaða lög og reglur það eru sem farið er eftir og er rauður þráður í gegnum þá þjónustu sem Hæfingarstöðin veitir.

Lög nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir

Það er starfsfólki Hæfingarstöðvarinnar ljúft og skilt að fara eftir markmiðum laganna sem er „að fatlað fólk eigi kost á bestu þjónustu sem unnt er að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess“. Við framkvæmd þjónustunnar skal bera virðingu fyrir mannlegri reisn þjónustunotenda, sjálfræði og sjálfstæði þeirra. Miða á þjónustuna við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður þjónustunotenda, óskir þeirra og önnur atriði sem skipta máli, svo sem kyn, kynferði, aldur, þjóðernisuppruna, trúarbrögð o.fl.

Í 5. kafla 24. grein er sérstaklega fjallað um að fatlað fólk skuli eiga kost á hæfingu sem stuðli að aukinni hæfni til starfa og þátttöku í daglegu lífi til jafns við aðra.

Hvað varðar hæfni starfsmanna er tilgreint í 27. grein 5. kafla að starfsfólk sem sinnir þjónustu við fatlað fólk skuli í öllum samskiptum við þjónustunotendur gæta þess að sýna þeim fulla virðingu og hafa mannlega reisn fatlaðs fólks að leiðarljósi.

Starfsfólk sem sinnir þjónustu við fatlað fólk skal í öllum samskiptum við það gæta þess að sýna því fulla virðingu og hafa mannlega reisn fatlaðs fólks að leiðarljósi í öllum störfum sínum. Starfsfólk sem starfar í þjónustu við fatlað fólk skal standa vörð um hagsmuni þess og gæta þess að réttindi þess séu virt. Verði starfsfólk þess áskynja að réttindi fatlaðs einstaklings séu fyrir borð borin skal viðkomandi tilkynna það réttindagæslumanni í samræmi við lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk.

Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga 40/1991 með síðari breytingum

Markmið laganna um félagsþjónustu sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Í 7. kafla laganna,sem fjallar um stuðningsþjónustu, segir að

„markmið stuðningsþjónustu er að aðstoða og hæfa notendur sem þurfa aðstæðna sinna vegna á stuðningi að halda við athafnir daglegs lífs og/eða til þess að rjúfa félagslega einangrun.“

Sé stuðningsþörf vegna fötlunar meiri en svo að henni verði mætt með þjónustu eða aðstoð samkvæmt 7. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga skal koma til viðbótar stuðningur samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.