Kjarnar Hæfingarstöðvarinnar

Þjónustu Hæfingarstöðvarinnar er skipt í Tjáskiptaþjálfun annars vegar og hins vegar Skynjun og virkni. Áherslum innan hvorrar þjónustueiningar er skipt í kjarna. Í Tjáskiptaþjálfun eru 3 kjarnar; Tjáskipti, Félagsfærni og Vinnufærni. Í Skynjun og virkni eru 4 kjarnar; Boðskiptakjarni, Skynjunarkjarni, Hugsanakjarni og Hreyfikjarni. Hver kjarni eru svo brotinn niður í áherslur eða markmið sem við köllum þætti. Til að geta unnið markvisst með hvern þátt er hann brotinn niður í verksvið. Hvert verksvið greinist niður í smæstu einingar sem kallast verkþættir.

Í einstaklingsáætlun hvers þjónustunotanda kemur fram hvaða kjarna unnið er með, hvaða þrep innan kjarnans og hvaða verksvið og verþátt unnið er með. Þannig er unnið skipulega með hverjum og einum þjónustunotanda út frá hans þörfum og frá þeim stað þar sem hann er staddur.

Kjarnar Tjáskiptaþjálfunar

Hver þjónustunotandi fær þjónustu út frá þeim kjarna eða kjörnum sem hann vill/þarf að efla færni sína í. Síðustu ár hefur megin þungi Tjáskiptaþjálfunar legið í tjáskiptakjarna.

Tjáskipti

Tjáning er grundvallar mannréttindi allra. Að geta tjáð sig, valið á milli hluta, tekið sjálfstæðar ákvarðanir og að geta stýrt lífi sínu eftir eigin höfði eykur lífsgæði einstaklingsins og leiðir m.a. af sér aukna virkni í samfélaginu. Það er öllum mikilvægt að geta tjáð tilfinningar sínar, óskir og vilja. Innan tjáskiptakjarna er unnið með tjáskipti hvort sem einstaklingurinn tjáir sig með Bliss tungumálinu, talmáli, táknum með tali eða myndum. Unnið er með markviss og kerfisbundin tjáskipti þar sem einstaklingurinn er meðal annarsstuddur við að eiga frumkvæði að tjáskiptum, efla orðaforða sinn og að læra á möguleika búnaðarins sem hann notar. Jafnframt er ávallt leitað lausna við að finna þann búnað sem hentar einstaklingnum best.

Félagsfærni

Það eykur lífsgæði fólks að eiga jákvæð samskipti við aðra og að geta viðhaldið góðu sambandi við samferðafólk sitt. Góð félagsfærni eykur sjálfsöryggi og sjálfsmat einstaklingsins og getur haft jákvæð áhrif á aðra þætti í lífi einstaklingsins. Unnið er markvisst að því að styrkja félagsfærni þjónustunotanda út frá persónulegri stöðu hans. Meðal annars er unnið að því að efla frumkvæði einstaklingsins, samvinu, sjálfshjálp, almenna kurteisi og samkennd.

Vinnufærni

Atvinnumöguleikar einstaklings aukast til muna ef vinnufærni hans er góð. Unnið er með almenna þætti sem snúa að vinnufærni. Þessi þættir eru meðal annarra ástundun, tölvufærni og færni við ýmis verkefni.

Kjarnar Grunnþjálfunar

Í Grunnþjálfun Hæfingarstöðvarinnar er unnið út frá fjórum kjörnum. Það eru boðskiptakjarni, skynjunarkjarni, hugsunarkjarni og hreyfikjarni. Hver þjónustunotandi fær þjónustu út frá öllum kjörnum en það er þó einstaklingsbundið hve mikið hver og einn hefur úr hverjum kjarna.

Boðskiptakjarni

„ Boðskipti er flutningur á boðum frá einum einstaklingi til annars – allt sem einstaklingur aðhefst, viljandi eða óviljandi, ber einhver boð að því tilskildu að mótttakandi sé nærstaddur, sem viljandi eða óviljandi skynjar boðin og túlkar þau.“
(M. Granlund, C. Olsson: Aukið boðskiptin. Þórsútgáfan, Reykjavík, 1992)

Það er réttur allra að eiga möguleika á að hafa boðskipti og þar með að geta tjáð sig. Rannsóknir hafa sýnt fram á að hlutverk mótttakandans (þjálfa) sé forsenda boðskipta en það er þó oft hann sjálfur sem bregst hlutverki sínu!

Í boðskiptakjarna er unnið að því að breyta frumboðskiptum í skipulögð boðskipti og er það gert með nákvæmum skráningum og faglegum vinnubrögðum.

Frumboðskipti

Frumboðskipti eru flutningur á boðum frá einum einstaklingi til annars. Þau eru allt sem einstaklingur/þjónustunotandi aðhefst og geta verið viljandi eða óviljandi. Hægt er að skipta boðskiptum í þrjá flokka það eru stýrandi boðskipti, tengjandi boðskipti og vísandi boðskipti.

Stýrandi boðskipti, sem eru einföld t.d. einstaklingurinn gefur frá sér hljóð, svipbrigði eða látbragð við ákveðnar aðstæður. Boðskiptin eru einföld og minna félagsleg boðskipti. Tilgangurinn með þeim er að ná tilteknu markmiði, ekki endilega að ná tengslum. Þau miðast að því að fá annan einstakling til að gera eitthvað fyrir sig. Boðskiptin verða að vera stutt ef þau eiga að bera árangur. Manneskjur í umhverfi einstaklingsins verða að sjá/skilja boðskiptin og svara strax því annars er hugsanlegt að einstaklingurinn gefist upp.

Tengjandi boðskipti þróast samhliða stýrandi boðskiptum eða í framhaldi af þeim. Þau beinast að því að koma á tengslum og viðhalda þeim s.s. brosa – heilsa – nefna nafn og framleiða hljóð í hléum þegar einhver er að tala. Tengjandi boðskipti gerast oft með athafnaröðum og má þar nefna gagnkvæmisleikir eins og „Gefa-taka“ og „gæjuleikur (gjugg í borg).

Vísandi boðskipti beinast að sameiginlegri upplifun einstaklinga (mótttakanda og þjónustunotanda) sem þá er hægt að ræða um. Í vísandi boðskiptum er athyglinni beint að einhverju sem báðir aðilar sjá/upplifa. Vísandi boðskiptum er svarað með því t.d. að líta á mynd eða hlut. Þau krefjast samspils á fleiri þrepum en stýrandi og tengjandi boðskipti. Fyrst þarf að ná athygli annars, beina athyglinni að einhverju og viðhalda athyglinni. Nauðsynlegt er að orða það þegar einstaklingurinn lætur í ljós áhuga á umhverfinu.

Frumboðskipti efld

Hægt er að efla frumboðskipti þegar mótttakandi boðanna er nærstaddur í tíma og rúmi, þ.e.a.s. með athyglina á einstaklingnum, gefa sér tíma og einbeita sér eingöngu að þeim sem sendir boðin. Móttakandinn þarf viljandi að skynja boðin, túlka þau og skrá. Með því að taka við og lesa í boð kemur móttakandinn í veg fyrir að þjónustunotandinn gefist upp og loki á boðskipti og samvistir við móttakandann og umhverfið. Móttakandinn læri merkingu hinna ýmsu viðbragð hjá einstaklingnum og með því að hlusta eftir blæbrigðum getur hann lagt merkingu í hvað einstaklingurinn er að tjá.

Umhverfið þarf að vera þannig að það hvetji til boðskipta og móttakandinn þarf að vera jákvæður gagnvart þeirri tjáningu/ þeim hljóðum sem einstaklingurinn sendir frá sér.

Hugsanakjarni

Hugsun er hugrænt ferli sem gerir okkur kleyft að gera eftirmynd af umheiminum og takast á við hann með skilvirkum hætti. Hún snertir eiginleika hluta, það að lögun þeirra, litur, þyngd og áferð er mismunandi; varanleika hluta, það að átta sig á varanlegri tilveru og að þó eitthvað sé falið geti það komið aftur ef vel er að gáð; rúmskilning þ.e. lögun umhverfisins, stærð himinsins og mismunandi stærð herbergja og svo snertir hún magnskilning og það að sumir hlutir virðast óteljandi eða bara einn til tveir.

Hugsun efld

Hugsun er efld meðal annars með sér útbúnum þjálfunargögnum sem þjálfa breytileika, eru í mismunandi litum, hafa mismunandi lögun, stærð og hafa mismunandi þyngd og áferð. Hugsun er efld með breytilegu umhverfi og litlum afmörkuðum rýmum þar sem þjálfun fer fram. Hugsunin er jafnframt efld þegar einstaklingurinn sér að hann getur hreyft við hlutum, breytt hlutum, haft áhrif og með því að fá tækifæri til að stjórna sjálfur.

Skynjunarkjarni

Skynjun er undirstaða alls vitræns þroska og við lærum í gegnum skynfæri okkar. Skilningur á raunveruleikanum verður til með því að skynreynslunni er raðað niður. Skynfærin eru okkar brú að ytra umhverfi sem gefa upplýsingar um líkama okkar og umhverfið. Líkamsskynjun tengist því hvar við skynjum okkur í rýminu og hvernig umhverfið er. Allt yfirborð mannslíkamans er gert til að skynja og er fyrsta skilningarvitið sem við notum. Heyrnarskynjun þarf oft að efla því oft bregðast einstaklingar ekki við hljóðum þó ekki sé vegna heyrnarskerðingar út frá líffræðilegum skilningi heldur tekst þeim ekki að gefa hljóðum merkingu. Mikil upplifun fæst í gegnum sjónskynjun sem verður oft einnig hvati til boðskipta. Lyktarskynjun segja okkur til um margt í umhverfi okkar og getur vakið upp minningar. Ekkert okkar skipuleggur skynáhrifin fullkomlega

Skynjun efld

Skynjun er efld á ýmsan hátt t.d. með því að örva húðskynjun og hjálpa til við að skynja líkamann sem heild og er nudd stór þáttur í því að efla tilfinningaleg samskipti og um leið efla boðskipti við þjálfa. Með því að bjóða uppá tækifæri til að hlusta á og framkalla ýmis hljóð og annað sem heyrist geti haft þýðingarmiklar upplýsingar að geyma. Sjónörvun fer fram í afmörkuðu rými þar sem skoðað og upplifað ýmis ljós og litbrigði ásamt sýndarveruleikagleraugum.

Hreyfikjarni

Hreyfing er mikilvæg allri líkamsstarfsemi. Regluleg hreyfing getur komið í veg fyrir vöðvastyttingar, kreppur og skekkjur í liðum. Geti þjónustunotandi ekki hreyft sig sjálfur er honum nauðsynlegt að fá aðstoð til þess. Með hreyfingu er verið að aðstoða og örva þjónustunotendur til að nýta möguleika sína á að ná fram aukinni færni. Aukin hreyfigeta heldur aftur af því að hreyfifærni tapist niður, eykur velferð og lífsgæði einstaklingsins og eykur möguleika á félagslegri þátttöku. Jafnframt auðveldar aukin hreyfigeta umönnun einstaklingsins og aðra aðstoð.

Hreyfing efld

Leiðbeiningum frá sjúkraþjálfurum er ávallt fylgt og er markmiðið að lágmarka afleiðingar fötlunar. Þjónustunotendur eru aðstoðaðir við að passa að staða líkamans sé sem réttust og við að skipta reglulega um líkamsstöðu. Þjónustunotendur fá tækifæri til að standa, sitja, ganga liggja, teygja og að nota ýmis hjálpartæki sem svo sem göngugrindur, spelkur, standbekki, ýmsa púða og hjálpartæki sem efla eða viðhalda hreyfifærni þeirra.