Saga Hæfingarstöðvarinnar

Hæfingarstöðin hóf starfsemi sína haustið 1988 í Hnotubergi í Hafnarfirði og var starfrækt af Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi. Halla Harpa Stefánsdóttir hefur verið forstöðuþroskaþjálfi frá upphafi og hefur ávallt lagt ríka áherslu á tjáskipti og að finna hátæknibúnað sem hentar hverjum og einum. Hún hefur unnið mikið brautryðjendastarf í þjónustu við fatlað fólk með því að halda á lofti að horfa skuli í styrkleika og færni einstaklingsins og vinna út frá því.

Í upphafi árs 1991 flytur Hæfingarstöðin innan Hafnarfjarðar og hefur síðan verið að Bæjarhrauni 2 í 317 fermetra húsnæði á jarðhæð. Árið 1992 hófu 4 einstaklingar af 24 þjónustunotendum Hæfingarstöðvarinnar Bliss þjálfun. Var sjónum beint að því að nýta hátækni og leitað allra leiða svo fötlun einstaklingsins væri ekki hindrun í tjáningu.

Starfsemin var á árum áður þrískipt og gátu þjónustunotendur valið á milli grunn –, starfs – og tjáskiptaþjálfunar. Í dag er starfsemin tvískipt annars vegar grunnþjálfun, þar sem megin áhersla er lögð á boðskipti og skynjun. Hins vegar er tjáskiptaþjálfun þar sem flestir eru að efla færni sína í Bliss tungumálinu.

1. janúar 2011 taka sveitarfélögin við málefnum fatlaðs fólks frá ríkinu og hefur Hafnarfjarðarbær starfrækt Hæfingarstöðina síðan. Eðli starfseminnar breyttist ekki við flutninginn og er enn leitað allra leiða til að efla boðskipta- og tjáskiptafærni þjónustunotenda.

Frá upphafi hefur verið unnið með hugmyndafræði prófessoranna Fröhlih og Haupt og sálfræðingsing Wolf Wolfensberger, en þau voru brautryðjendur í að breyta viðhorfum fólks til einstaklinga með fötlun og hvernig þjónustu til þeirra og þjálfun væri sinnt.

Ávallt hefur verið áhersla á að starfsfólk Hæfingarstöðvarinnar sýni þjónustunotendum og samstarfsfólki fyllstu virðingu og unnið er á jafningjagrundvelli.