Staðurinn

Hæfingarstöðin hefur það hlutverk að bjóða einstaklingum 18 ára og eldri með langvarandi stuðningsþarfir, einstaklingsmiðaða þjónustu miðað við þarfir hvers og eins. Samkvæmt lögum skal hæfing stuðla að aukinni hæfni til starfa og þátttöku í daglegu lífi til jafns við aðra.

Engin vinnutengd verkefni eru unnin á staðnum og ekki er nein tenging við vinnumarkaðinn né almenna skólakerfið.

Áhersla er lögð á skipulagða þjónustu og þroskaþjálfun sem felur m.a. í sér skynörvun, boðskipti og að efla notkun óhefðbundinna tjáskipta. Þar má fyrst og fremst nefna Bliss tungumálið og “Intensive Interation”. Haft er að leiðarljósi – að tjáning er grundvallar mannréttindi – sem leiðir af sér meiri virkni í samfélaginu og um leið eykur lífsgæðin. Einnig er lögð áhersla á að hæfing er ígildi – vinnu og/eða náms.

Meginstefnan er að auka möguleika þjónustunotenda til að þróa styrkleika sína sem leiðir til frekari þátttöku í eigin lífi og þar með í samfélaginu.

Tveir þjónustuhlutar eru í Hæfingarstöðinni – Skynjun og virkni annars vegar og Bliss tungumálið hins vegar. Meginstefnunni er framfylgt með yfirmarkmiðum þessara tveggja þjónustuhluta.

Yfirmarkmið Skynjunar og virkni er að auka hæfni þjónustunotenda í grunnboðskiptum, skynjun, hugsun og hreyfingu með viðeigandi og viðurkenndum þjálfunar- og nálgunarleiðum.

Yfirmarkmið tjáskiptaþjálfunar er að auka hæfni þjónustunotenda í notkun óhefðbundinna tjáskipta með viðeigandi tjáskiptaforritum, tjáskiptatækjum og hátæknibúnaði.