Automatic translation by Google Translate. We can not guarantee that it is accurate.

Eitthvað sameiginlegt – eitthvað öðruvísi á Íslandi

Nordplus samstarfsverkefni um þjónustu við fatlað fólk

Hæfingarstöðin í Bæjarhrauni er þátttakandi í Nordplus verkefni um hugmyndafræði og nálgunarleiðir í þjónustu við fatlað fólk. Um er að ræða tveggja ára samstarfsverkefni milli þriggja þjóða, þ.e.a.s. Íslands, Litháen og Noregs sem ber yfirskriftina „Something common – something different“ eða „Eitthvað sameiginlegt – eitthvað öðruvísi“. Það eru mannréttindi að geta átt tjáskipti við aðra.

Allir eiga að fá tækifæri til að lifa innihaldsríku og sjálfstæðu lífi

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnun (WHO, 2018) er meira en einn milljarður, eða um 15% manna í heiminum með fötlun og að mati Sameinuðu þjóðanna eru fatlað fólk stærsti minnihlutahópur heims. Það þarf stöðugt að skapa og þróa nýjar þjónustuleiðir til þess að allir fái tækifæri til að lifa innihaldsríku og sjálfstæðu lífi. Samstarf Íslands, Litháen og Noregs í þessu verkefni hefur í grunninn snúið að því að deila reynslu og þekkingu um nýja tækni og möguleika og þannig hafa m.a. verið kynntar ýmsar áhugaverðar þjónustuleiðir.  Hópurinn í heild hefur fengið kynningar á ólíkri hugmyndafræði og fjölbreyttum tjáskiptaleiðum ásamt því að kynnast þeirri nýsköpun sem er að eiga sér stað í tjáskiptatækninni s.s. sértækar tjáskiptatölvur. Markmiðið með þessu verkefni er að skiptast á reynslu og þekkingu hvað varðar nálgunarleiðir sem notaðar eru á hinum ýmsu þjónustustöðum.

Tjáskiptaþjálfun, samskipti, þjónandi leiðsögn og tjáskiptatölvur   

Fyrsti hluti samstarfsverkefnis var haldinn dagana 6. – 10. mars hér í Hafnarfirði með heimsókn tólf  samstarfsaðila frá Litháen og Noregi, þar að meðal þriggja einstaklinga með stuðningsþarfir. Í upphafi heimsóknar fékk hópurinn kynningu frá Hrönn Hilmarsdóttur, deildarstjóri þróunar og reksturs í málaflokki fatlaðs fólks hjá Hafnarfjarðarbæ, um þjónustu sveitarfélagsins við fatlað fólk. Næst fékk hópurinn kynningu á tjáskiptaþjálfun í Hæfingarstöðinni, Snoezelen hugmyndafræðinni, Intensive Interaction (áköf samskipti) og Þjónandi leiðsögn (GTI) ásamt öðrum starfsháttum og skipulagi þar. Einnig kom starfsmaður frá Öryggismiðstöðinni, Hrönn Birgisdóttir iðjuþjálfi, og kynnti ýmis hjálpartæki og leiðbeiningar varðandi notkun á tjáskiptatölvum. Til viðbótar var hópunum boðið á kynningar á ýmsum þjónustustöðum bæjarins sem og annarstaðar á höfuðborgarsvæðinu. Annar hluti verkefnisins mun fara fram í Litháen nú í sumar þar sem einn þjónustunotandi frá Hæfingarstöðinni og þrír starfsmenn fá kynningu m.a. á hugmyndafræði og nálgunarleiðum sem notaðar eru þar í landi. Þriðji og síðasti hluti verkefnisins verður svo í haust og felur í sér heimsókn til Noregs.